FÉLAG ÍSLENSKRA BARNALÆKNA
Reykjavík 25. september 2000
Magnús Pétursson,
forstjóri
Landspítala Háskólasjúkrahúss
Eiríksgötu 5
101 Reykjavík
Af tilefni þeirrar skerðingar sem orðið hefur á starfsemi barnadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi var eftirfarnandi ályktun samþykkt á almennum félagsfundi hjá Félagi ísleskra barnalækna.
Eins og kunnugt er var sú breyting nýlega gerð á rekstri barnadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi að deildin lokar tvær helgar af hverjum þremur, auk þess sem bráðavöktum deildarinnar hefur verið fækkað. Aukin hagræðing í rekstri Landspítala-háskólasjúkrahúss er vissulega mikilvæg, en nauðsynlegt er að faglegir þættir verði ekki fyrir borð bornir við slíkar breytingar.
Ýmis konar þjónusta við börn er á Landspítala-háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, sem ekki er veitt á Landspítala-háskólasjúkrahúsi við Hringbraut. Má þar nefna háls-, nef- og eyrnalækningar og heila- og taugaskurðlækningar, auk þess sem aðal slysamóttaka landsins er í Fossvoginum. Til þess að umönnun þeirra barna, sem þurfa á þessari sérþjónustu að halda, sé viðunandi þarf barnadeildin í Fossvogi að vera opin allan sólarhringinn allan ársins hring. Ótímabær flutningur þessara barna milli sjúkrastofnana getur verið varasamur, auk þess sem nálægð barnanna við viðkomandi sérþjónustu er nauðsynleg.
Skerðing á starfsemi barnadeildarinnar í Fossvogi hefur óhjákvæmilega í för með sér aukið álag á starfsemi Barnaspítala Hringins, sem ekki verður mætt sem skyldi með óbreyttum rekstri. Skortur er nú þegar á hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Einnig er þar verulegur húsnæðisvandi, þ.á m. bágborin einangrunaraðstaða. Hætta er á að óhóflegt vinnuálag og aðstöðuleysi verði til þess að ummönnun sjúklinga á Barnaspítala Hringsins verði ábótavant. Jafnframt er hætta á því að slíkt ástand leiði til þess að enn erfiðara verði að fá hjúkrunarfræðinga þangað til starfa, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þegar barndeildin á Landakotsspítala flutti á Sjúkrahús Reykjavíkur árið 1995 þótti það mikið framfaraspor og naut eindregins stuðnings Félags íslenskra barnalækna. Fram að því höfðu þau börn, sem þurftu umönnunar við á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, að vistast á deildum fyrir fullorðið fólk. Óttumst við að skerðing á starfsemi barnadeildarinnar í Fossvogi verði til þess að börn fari aftur að vistast á öðrum deildum spítalans. Liggur í augum uppi að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óásættanlegt í dag.
Félag íslenskra barnalækna mótmælir harðlega þeirri skerðingu sem orðið hefur á starfsemi barnadeildarinnar í Fossvogi. Félagið telur slíka skerðingu ganga þvert á þjónustuþarfir þeirra barna sem þar vistast, að hún auki líkur á alvarlegum mistökum í meðferð þeirra og sé því faglega óviðunandi. Því vill félagið beina þeim eindregnu tilmælum til yfirstjórnar Landspítala-háskólasjúkrahúss að hún hlutist til um að starfsemi barnadeildarinnar í Fossvogi verði komið í fyrra horf sem fyrst.
Virðingarfyllst,
fyrir hönd Félags íslenskra
barnalækna
Þórður Þórkelsson, formaður
Afrit:
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og
tryggingamálaráðherra
Anna Stefánsdóttir,
hjúkrunarforstjóri
Jónannes Gunnarsson, lækningaforstjóri
Læknaráð
Landspítala-háskólasjúkrahúss