Ágrip af sögu Hringsins

Hringurinn var stofnaður í Reykjavík 26. janúar 1904 að frumkvæði Kristínar Vídalín Jacobsson (1864-1943) og var hún formaður félagsins frá upphafi til dánardægurs.

Stofnendur voru 46 reykvískar konur, flestar við fremur góðar aðstæður miðað við þann tíma. Í fyrstu var Hringurinn skemmtifélag, en eftir tæp tvö ár ákváðu þær að vinna gegn útbreiðslu berkla og aðstoða sjúklinga að njóta lækninga og hjúkrunar.

Árið 1910 er þess fyrst getið opinberlega að framtíðarverkefni Hringsins sé að koma upp hressingarhæli, eða einhverskonar vinnuheimili, fyrir þá sem útskrifaðir eru af berklahæli og árið 1926 er það vígt í Kópavogi.

Árið 1939 vildi ríkisstjórnin kaupa hælið af Hringnum en félagið afréð að gefa ríkinu það til fullrar eignar með öllum búnaði í lok þess árs.

Á félagsfundi árið 1942 var samþykkt tillaga þess efnis að félagið skyldi eftirleiðis beita sér fyrir því að komið yrði upp barnaspítala á Íslandi.

Árið 1952 ná þær samningi við heilbrigðisyfirvöld um að taka þátt í byggingu barnaspítala með fjárframlögum.

Árið 1957 er opnuð í risi Landspítalabyggingarinnar barnadeild til bráðabirgða meðan unnið var að stækkun spítalans. Árið 1965 fluttist barnadeildin í sitt núverandi húsnæði í vesturálmu spítalans og hefur heitið síðan Barnaspítali Hringsins í viðurkenningarskyni við helsta styrktaraðilann. Báðar þessar barnadeildir bjuggu Hringskonur húsgögnum og öðrum búnaði; en einnig lét Hringurinn margar milljónir í sjálfa bygginguna.

Geðdeild Barnaspítalans við Dalbraut fékk allt innanstokks frá Hringnum við opnun 1971 og þegar vökudeild var opnuð árið 1976 áttu Hringskonur þátt í að búa hana út.

Hringskonur munu leggja fjármuni í byggingu nýs hús Barnaspítala Hringsins sem ráðgert er að verði opnaður haustið 2002. Þá munu þær einnig leggja til fjármagn til búnaðar á sjúkrastofum og tækjakaupa sjúkrahússins. Þetta er í fjórða sinn sem Hringskonur gefa fé til kaups á rúmum og búnaði fyrir barnaspítala.

Morgunblaðið, 13. apríl 2002


Forsíða | Stjórn | Félagatal | Læknar erlendis | Lög félagsins
Skýrslur stjórnar | Fréttir Ráðstefnur | Fræðsluefni | Tímarit | Tenglar